Ekki er útlit fyrir að Icebank verði skráður á hlutabréfamarkað á næsta ári og ekki er búið að ákveða tímasetningu skráningar, að því er fram kom í samtali Viðskiptablaðsins í dag við Agnar Hansson, nýráðinn bankastjóra Icebank. Agnar segir að lögð hafi verið fram 5 ára áætlun árið 2006 sem gildi til 2011. Í þeirri áætlun komi fram að til standi að skrá bankann á hlutabréfamarkað. Hins vegar taki stjórnendur bankans mið af markaðsaðstæðum hverju sinni.

Agnar segist stoltur af bankanum: „Ef níu mánaða uppgjör bankans er skoðað eru þær tölur mjög góðar og ég held að það séu fáar fjármálastofnanir sem geti státað af jafn miklum vexti á þessum tíma,“ sagði Agnar.

Áherslubreytingar, en engar róttækar breytingar

Spurður um breytingar innan bankans segir hann að með nýjum mönnum komi alltaf nýjar áherslur. Þó verði engar róttækar breytingar á stefnu bankans þó einhverjar breytingar verði á framkvæmdastjórn hans.

Eins og fram kom í fréttum vb.is fyrr í dag var Agnars Hansson ráðinn bankastjóri Icebank í dag í stað Finns Sveinbjörnssonar. Þá hefur Sigurður Smári Gylfason verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Gunnar Svavarsson sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og Hafdís Karlsdóttir sem verið hefur framkvæmdastjóri rekstrarsviðs munu láta af störfum hjá bankanum.