Þrátt fyrir að tíðindi af leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Búkarest í Rúmeníu hafi snúist um málefni Afganistans og mögulega aðild Úkraínu og Georgíu hlýtur afdráttarlaus stuðningur bandalagsríkjanna við eldflaugavarnaáform Bandaríkjastjórnar í Evrópu að teljast til helstu tíðinda hans.

Í Búkarest-yfirlýsingunni - nánar tiltekið í 37. grein - eru lögð drög að eldflaugavörnum allra aðildarríkja NATO, vestanhafs og austan. Með stuðningi íslenskra stjórnvalda við yfirlýsinguna hafa þau, ásamt öðrum bandalagsríkjum, viðurkennt vaxandi ógn vegna hugsanlegra eldflaugaárása útlagaríkja á aðildarríki bandalagsins og nauðsyn þess að eldflaugavarnarskjöldur verði reistur yfir Evrópu og Bandaríkin.

Um leið hafa þau kosið að bjóða Rússum byrginn, en þeim eru áform þessi mikill þyrnir í augum.

Öll aðildarríkin njóti eldflaugavarna

Í yfirlýsingu fundarins er eldflaugavarnaráformum Bandaríkjanna í Evrópu fagnað og því lýst yfir að vinna muni hefjast við að leita leiða til þess að hægt verði að tengja slíkt kerfi við varnarkerfi NATO þannig að öll aðildarríki bandalagsins njóti eldflaugavarna í framtíðinni. Skal áætlun um það liggja fyrir leiðtogafundi NATO á næsta ári. Verði af þeim áformum er ekki ósennilegt að til greina komi að reisa mannvirki til þeirra nota hér á landi. Slíkur viðbúnaður gæti falið í sér bæði ratsjárbúnað og gagneldflaugar til þess að granda aðvífandi eldflaugum.

Samstaða og einhugur þrátt fyrir hótanir Rússa

Sem kunnugt er hafa fyrirhugaðar eldflaugavarnir Bandaríkjamanna í Póllandi og Tékklandi verið mikið hitamál á pólitískum vettvangi og spennuvaldur í samskiptum stjórnvalda í Washington og Moskvu, sem NATO- ríkin í austurvegi hafa ekki farið varhluta af heldur. Kerfinu er ætlað að veita vernd gegn hugsanlegri eldflaugaárás frá útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu og Íran, en rússnesk stjórnvöld telja að í því felist ögrun við sig, sem raskað geti öryggisjafnvægi í Austur-Evrópu.

Segja þau að kerfinu sé ekki síður ætlað að veikja hernaðarhagsmuni Rússa, þó annað sé látið í veðri vaka og hafa Kremlverjar hótað öllu illu verði af uppsetningu kerfisins í Evrópu. Eins og í svo mörgum öðrum mikilvægum málum er varða hagsmuni Rússlands hefur ekki borið á einingu Evrópuríkjanna í málinu.

Það er ekki síst í ljósi þessa að stjórnmálaskýrendur telja yfirlýsingu fundarins í Búkarest meiriháttar sigur fyrir bandaríska utanríkisstefnu, en stjórnvöld í Washington hafa ítrekað lýst yfir nauðsyn eldflaugavarnakerfis. Þá er með henni meira látið með öryggishagsmuni hinna nýju aðildarríkja NATO í Mið- og Austur-Evrópu en verið hefur.

Til þessa hefur stefna bandalagsins mjög mótast af viðleitni við að styggja Rússa sem minnst. Hefur nokkur núningur verið milli bandalagsríkjanna í Vestur- og Austur-Evrópu — gömlu Evrópu og nýju Evrópu — en hin nýfrjálsu ríki í Mið- og Austur-Evrópu telja granna sína í vestri hafa lokað augunum fyrir aðsteðjandi og viðvarandi ógn úr austri. Nú hefur vindurinn snúist, m.a. eftir að nýir valdhafar tóku við stjórnartaumunum í Þýskalandi og Frakklandi, og er yfirlýsingin ekki aðeins túlkuð sem sigur fyrir  Bandaríkjastjórn, heldur einnig um að bandalagið muni leggja aukna áherslu á hina nýju austurstoð NATO. Í henni felist afdráttarlaus viðurkenning á að útbreiðsla langdrægra eldflauga skapi ógn við öryggishagsmuni NATO alls og þar af leiðandi nauðsyn eldflaugavarna.

Margir hafa talið að áform Bandaríkjamanna kynnu að grafa undan einingu innan NATO, ekki síst vegna þess að það eldflaugavarnakerfi sem Bandaríkjamenn hyggjast reisa myndi ekki ná til aðildarríkja bandalagsins í Suður-Evrópu.

Afdráttarlaus viðurkenning á sjónarmiðum Bandaríkjanna

Hins vegar felur yfirlýsingin í sér órofa samstöðu um að sú staða komi ekki upp og að eldflaugavarnir Bandaríkjamanna verði tengdar við áform NATO um uppsetningu slíks kerfis fyrir allt varnarsvæði þess. Sú samstaða kann hins vegar að leiða af sér pólitískan kostnað heima fyrir hjá ýmsum ríkjaleiðtogum bandalagsins, t.d. í Þýskalandi og á Spáni.

Hér á Íslandi hefur varnarviðbúnaður af þessu tagi aldrei verið ræddur, en innan Samfylkingarinnar, flokks Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hafa heyrst efasemdaraddir um eldflaugavarnir Bandaríkjanna, bæði heima fyrir og í Evrópu.