Flug Icelandair FI 450 til/frá Íslandi  London, Heathrow sem fara átti frá Keflavíkurflugvelli í morgun hefur verið fellt niður og einnig síðdegisflug FI 454 til/frá London. Morgunfluginu  til/frá Osló, Kaupmannahafnar og Stokkhólms og sömuleiðis síðdegisflugi til/frá Kaupmannahafnar hefur verið seinkað. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, verða næstu upplýsingar gefnar klukkan 16.00.

Flug til/frá Amsterdam og Frankfurt er samkvæmt áætlun og sömuleiðis flug síðdegis til Boston og New York í Bandaríkjunum.

Um tvö þúsund farþegar eiga bókað flug með Icelandair á þeim flugum sem raskast hafa,staðsettir hér á landi og erlendis. Óljóst er hver þróun gossins verður og hvenær flug verður á ný með eðlilegum hætti. Farþegar eru hvattir til að fylgjast með fréttum, brottfarar- og komutímum á textavarpi og vefsvæðum, og á icelandair.is