Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,2% í dag og voru öll bréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar rauð nema í Skel fjárfestingafélagi. Af þeim 20 félögum sem skráð eru í Kauphöllina lækkaði gengi 19 þeirra í viðskiptum dagsins.

Icelandair lækkaði mest í dag eða um 6,55% en veltan nam 519 milljónum króna og stendur verðið í 1,57 krónum á hlut í lok dags. Þar á eftir lækkaði Eimskip um 3,78% í 322 milljón króna viðskiptum og þriðja mesta lækkunin voru bréf Haga en lækkun félagsins nam 3,70% í 110 milljón króna viðskiptum.

Heildarveltan í viðskiptum dagsins var 3,7 milljarðar króna en mesta veltan var með bréf Kviku eða sem nam ríflega 700 milljónum en bankinn lækkaði um 1,46%. Minnstu viðskiptin voru með bréf í Skel fjárfestingafélagi, eða sem nemur 270 þúsundum króna. Félagið var þó eina sem hækkaði í viðskiptum dagsins eða sem nam 1,27% og stendur í 16 krónum á hlut.