„Það er fullt af eldra fólki í þjóðfélaginu sem er ekki með neinar tekjur og hefur enga möguleika á það hvort borgaður er arður eða ekki til að greiða auðlegðarskattinn,“ segir Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Stálskipa í Hafnarfirði. Hún hefur lengi verið á móti auðlegðarskattinum sem lagður var á ákveðið eignabil árið 2009 og mun að öllu óbreyttu renna sitt skeið um næstu áramót.

Arður greiði auðlegðarskatt

Guðrún, sem fagnar 80 ára afmæli á þessu ári, á 20% hlut í Stálskipum á móti manni sínum og börnum. Félagið hefur gert út frystitogarann Þór HF í rúm 40 ár. Hluthafar Stálskipta fengu greiddar 114 milljónir króna í arð vegna afkomu fyrirtækisins árið 2010 og bættist það við tæplega 70 milljóna arð ári fyrr. Miðað við hlutafjáreign Guðrúnar nam arðgreiðsla til hennar tæpum 23 milljónum króna.

Viðskiptablaðið hefur heyrt af því að arðgreiðslurnar hafi átt að standa undir auðlegðarskatti hluthafa Stálskipa, þ.e. fjölskyldu Guðrúnar. Spurð um þetta svarar hún því til að margir eldri borgarar séu ekki svo heppnir að vera í hennar stöðu. Þeir eigi kannski stórar eignir, svo sem húseignir, en eiga í vandræðum að greiða auðlegðarskatt vegna þeirra þar sem tekjur hrökkvi ekki til. „Með hvaða peningum á þetta fólk að borga auðlegðarskattinn?“ spyr hún á móti og segir svo virðast sem það sé orðin dauðasynd að efnast. Í raun sé verið að ráðast á hluthafa sem hafi fjárfest í fyrirtækjum. „Það á að leggja þennan skatt af eins og skot.“

Vb.is hefur áður greint frá því að Guðrún telji auðlegðarskattinn brjóta í bága við stjórnarskrá og hafi hún höfðað mál gegn ríkissjóði til að fá 35 milljónir króna endurgreiddar. Vb.is hafði eftir henni fyrr í dag að hún tryði því varla að skatturinn verði aflagður um áramótin eins og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi sagt í síðustu viku.

„Ég er ekki svona trúgjörn,“ sagði hún.