Heimsmarkaðsverð á eldsneyti hefur hækkað verulega að undanförnu. Til dæmis hefur verð á hráolíu hækkað um 35% frá áramótum. Eykur þetta verðbólguþrýsting í heiminum um þessar mundir. Vaxandi eftirspurn og ótti við framboðsrof virðist helsta skýringin á bak við verðhækkunina ásamt miklu peningamagni í umferð. Hér á landi hefur verð til neytenda lítið breyst frá áramótum en var þó hátt fyrir. Hækkun krónunnar hefur vegið á móti segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Bensínverðhækkun á næstu dögum eða vikum er engu að síður sennileg og gæti seinkað því að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu. Verðbólgan mælist nú 4,7% og er því hátt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði bankans og utan efri þolmarka peningastefnunnar (4%).

Eldsneytisverð á heimsmarkaði verður líklega áfram hátt á næstunni miðað við hagvaxtarspár og ástandið í Mið-Austurlöndum. Svigrúm OPEC ríkjanna til að auka framleiðslu er sagt lítið um þessar mundir og flest bendir til þess að eftirspurn í heiminum muni vaxa talsvert á næstu árum, ekki síst í ljósi iðnvæðingar og verulegs hagvaxtar í Asíu og víðar. Áhrif þensluhvetjandi peningastefnu helstu seðlabanka í heiminum gæti enn og stuðlar að háu verði á hrávörum, fasteignum og fleiru vegna mikils peningamagns í umferð að því er kemur fram íMorgunkorninu.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.