Rekstrarhagnaður Icelandair Group á þriðja ársfjórðungi var um 8,7 milljarðar króna, samanborið við rúman 9,1 milljarð króna á sama tíma í fyrra og lækkar því um 5% á milli ára.

Hagnaður eftir skatta og fjármagnsgjöld var 5,4 milljarðar króna, samanborið við 5,2 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Heildarvelta félagsins var um 35,9 milljarðar króna og jókst um 15% frá sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá Icelandair Group. Þar kemur fram að þegar tekið er tillit til félaga sem fóru út úr samstæðunni um síðustu áramót er veltuaukningin 20%. Þá kemur jafnframt fram að olíuverð hafi að meðaltali verið 46% hærra en á síðasta ári og að bein kostnaðarhækkun vegna þessa metin um 2,2 milljarða króna.

Sem fyrr segir hækkar hagnaður félagsins eftir skatta á milli ára. Þar munar nokkru um minni fjármagnskostnað en hann nam á þriðja ársfjórðungi 0,6 milljörðum króna samanborið við 1,2 milljarð króna árið áður.

Tekjur félagsins af farþegaflutningum námu á tímabilinu 25,1 milljarði króna, samanborið við 21 milljarð á sama tíma í fyrra og jókst því um 19% á milli ára.

Kostnaður eykst umfram tekjur

Hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nemur 4,6 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við 3,1 milljarða á sama tímabili í fyrra. Heildarvelta fyrstu níu mánuði ársins var 76,9 milljarðar króna og jókst um 11% á milli ára.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins nemur 10,5 milljörðum króna, samanborið við 11,5 milljarða á sama tíma í fyrra. Tekjur félagsins jukust um 7,6 milljarða króna á milli ára, en að sama skapi jókst rekstrarkostnaður félagsins um rúma 8,5 milljarða króna. Þar munar mestu um hækkandi eldsneytisverð sem hækkar um rúma 5,5 milljarða króna á milli ára fyrstu níu mánuði ársins, eða 48%.

Launakostnaður félagsins eykst einnig nokkuð á milli ára. Þannig nam launakostnaður félagsins 16,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 15 milljarða á sama tímabili í fyrra sem þýðir 11% hækkun.

Handbært fé frá rekstri nam 13,2 milljörðum króna samanborið við 11,9 milljarða á fyrstu níu mánuðum árið áður. Heildareignir Icelandair Group námu 91,4 milljörðum í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall var 36,4% í lok tímabilsins, en var 18,6% á sama tíma í fyrra.

Rekstrarhorfur jákvæðar en mögulega neikvæð EBIDTA á fjórða ársfjórðungi

„Við erum því mjög sátt við rekstrarniðurstöðuna og þrátt fyrir blikur á lofti í efnahagsmálum heimsins þá eru rekstrarhorfur Icelandair Group jákvæðar,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group í tilkynningunni.

„Eins og kunnugt er hefur gengi evru og dollars og eldsneytisverð veruleg áhrif á afkomu samstæðunnar. Miklar sveiflur hafa einkennt erlenda fjármálamarkaði að undanförnu sem gerir allar spár óvissari. Vegna hærra eldsneytisverðs og aukinnar framleiðslu þá gerum við ráð fyrir að afkoma á fjórða ársfjórðungi 2011 verði mun lakari en á árinu 2010 þegar EBITDA samstæðunnar nam um 1,1 milljarði króna. Uppfærð rekstrarspá fjórðungsins gerir ráð fyrir að EBITDA á síðasta ársfjórðungi verði óveruleg eða jafnvel neikvæð um allt að 0,5 milljarða króna og að EBITDA ársins í heild verði því 10,0 – 10,5 milljarðar króna.“

Björgólfur Jóhansson
Björgólfur Jóhansson
© BIG (VB MYND/BIG)

Björgólfur Jóhansson, forstjóri Icelandair Group.