Ellefu starfsmönnum prjónastofunnar Glófa á Hvolsvelli hefur verið sagt upp. Starfseminni verður hætt á staðnum 1. mars 2015 ef ekki rætist úr verkefnastöðu fyrirtækisins. Vísir greinir frá þessu.

Páll Kr. Pálsson, framkvæmdastjóri Glófa, segir í samtali við Vísi að fyrst og fremst sé um varúðarráðstöfun að ræða. Fyrirtækið hafi verkefni út febrúar 2015 en óljóst sé með framhaldið. „Vörurnar frá Hvolsvelli hafa aðallega farið til eins aðila í Þýskalandi en þar hefur eftirspurnin dottið niður og því þarf m.a. að grípa til þessara uppsagna.“

Glófi er stærsti framleiðandinn á ullarvörum úr íslensku vélprjónabandi og er með starfsemi á Akureyri, í Kópavogi og á Hvolsvelli.