Skiptastjóri þrotabús Baugs er að fara yfir kröfulýsingaskrá búsins með kröfuhöfum vegna ágreiningskrafna og unnið að því að leysa það. Í mörgum tilvikum var ágreiningur um vaxtaútreikninga eða þá hefur skort. Að sögn skiptastjórans Erlends Gíslasonar hrl. hafa slíkir útreikningar borist og þeir samþykktir í sumum tilvikum.

Landsbanki Íslands hf. gerði eina aðalkröfu í þrotabúið og var hún upp á ríflega 94 milljarða króna. Á skiptafundi 15. september sl. var henni hafnað að svo stöddu. Lögmenn Landsbankans mótmæltu því og áskildu sér rétt til að koma með gögn sem styddu kröfuna. Að sögn Erlends hafa þau gögn ekki borist ennþá.

Fjölþætt krafa

Hér er um að ræða fjölþætta kröfu sem samanstendur af mörgum liðum, er þar bæði um að ræða lán og ábyrgðir. Landsbankinn hefur sem kunnugt er leyst til sín BG Holding sem hélt utan um flestar eignir Baugs í Bretlandi. Þær eignir eru flestar veðsettar og koma almennum kröfuhöfum ekki til góða. BG Holding á stóran hlut í mörgum af stærstu tískuvöruverslunum Bretlands, svo sem House of Fraser, Jane Norman, Mosaic Fashion auk þess að eiga hlut í leikfangaversluninni Hamleys og matvörukeðjunni Iceland.