Gengi hlutabréfa fjármálafyrirtækja hækkuðu mikið á þriðjudag þrátt fyrir að svissneski bankinn UBS hafi tilkynnt um afskriftir á 19 milljörðum Bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi ársins vegna hrunsins á markaðnum með fasteignatryggða fjármálagjörninga.

Af þessu má draga þá ályktun að fjárfestar hafa væntingar um að þetta sé eitt síðasta höggið sem fjármálafyrirtæki þurfa að taka á sig vegna lánsfjárkreppunnar sem skall á í fyrra.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að fjármálafyrirtæki hafi þegar afskrifað 215 milljarða dala á síðustu þremur fjórðungum vegna þróunarinnar á markaðnum með eignatryggða fjármálagjörninga og því sé freistandi að trúa að tapið verði minna á komandi misserum.

Uppgjör bandarískra fjármálafyrirtækja á fyrsta fjórðungi ársins munu varpa ljósi hvort um sé að ræða svikalogn mitt í vályndu veðri á fjármálamörkuðum.

Margir sérfræðingar óttist að afskriftir bæði Citigroup og Merrill Lynch verði meiri en talið hefur verið og að undanförnu hafa greiningadeildir dregið úr hagnaðarspám bankanna. Líklegt þykir að tapið muni ekki eingöngu stafa af stöðutökum í skuldabréfavafningum sem innihalda undirmálslán heldur einnig vegna lánveitinga til skuldsettrar yfirtöku og fjármálagjörningum sem tengjast atvinnuhúsnæði.

Slíkt myndi benda til þess að lánsfjárkreppan sé djúpstæðari en svo að hún tengist eingöngu fasteignamarkaðnum og gæti leitt til enn frekari ásóknar fjármálafyrirtækja í lausafé til þess að styrkja eiginfjárhlutfallið með tilheyrandi streitu fyrir fjármálamarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .