Actavis greindi frá því á föstudaginn að búið væri að samþykkja endurgreiðslulista lyfja í Búlgaríu. Um er að ræða lista yfir lyf sem heilbrigðisyfirvöld í Búlgaríu taka þátt í að greiða. Gert er ráð fyrir að listinn taki gildi innan 9 virkra daga, en eins og kunnugt er olli seinkun á útgáfu listans m.a. því að sala Actavis í Búlgaríu dróst saman um 14% á fyrstu níu mánuðum síðasta árs. Þetta hefur m.a. leitt til þess að sala eigin vörumerkja verður óviðunandi á árinu en alls nemur sala eigin vörumerkja um 50% af heildarsölu félagsins segir í Vegvísi Landsbankans.

Þar er bent á að meðal nýrra vara frá Actavis á listanum eru Citalopram, Renapril (enalapril) og Lisinopril. Jafnframt eru eldri lyf Actavis nú á listanum í fyrsta sinn. "Á þessu ári verður viðmiðunarverð til staðar í endurgreiðslukerfinu í fyrsta skipti en slíkt er talið koma samheitalyfjafyrirtækjum til góða þar sem þau endurgreiðslukerfi sem byggja á viðmiðunarverði mæla yfirleitt með ódýrari valkostum. Það að endurgreiðslulistinn hafi loksins verið samþykktur skiptir miklu máli fyrir sölu Actavis í Búlgaríu og er ein af forsendum þess að við komum til með að sjá áframhaldandi vöxt í sölu eigin vörumerkja enda Búlgaría næst stærsta markaðssvæði Actavis í sölu eigin vörumerkja (21% af heildarsölu eigin vörumerkja) á eftir þeim tyrkneska," segir í Vegvísi Landsbankans.

Þars egir einnig að fréttin er í takt við rekstraráætlanir þeirra á Actavis fyrir árið 2005 þar sem gengið var út frá því að endurgreiðslulistinn yrði samþykktur í byrjun þessa árs. Í síðasta verðmati á Actavis, sem gefið var út í kjölfar níu mánaða uppgjörs, er t.a.m. reiknað með 16,5% innri vexti og 27% EBITDA-framlegð hjá greiningardeild Landsbankans.