Þórdís Sigurðardóttir, sem hingað til hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjölmiðla- og tæknisviðs Baugs verður nú forstjóri Stoða Invest í kjölfar sölu Baugs á fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækjum sínum.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Þórdís að engin breytingar væru enn boðaðar á þeim hluta sem áður sneri að fjölmiðla og tæknisviði. Hún segir einungis sé verið að mynda félag utan um þessar eignir og Stoðir Invest verði í framtíðinni systurfélag Baugs.

„Hluthafarnir verða þeir sömu og nú eiga Baug þannig að þetta verða systrafélög,“ sagði Þórdís.

Í frétt vb.is fyrr í morgun var greint frá því að frekari breytingar verði kynntar síðan innan Stoða Invest. Það er hins vegar ekki rétt og leiðréttist hér með.

Vb.is staðfest í samtali við Þórdísi að engar frekari breytingar eru boðaðar á Stoðum Invest sem mun heyra yfir þau fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki sem áður voru í eigu Baugs.

Er beðist velvirðingar á mistökunum.