Ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu við fréttamenn eftir fund í Ráðherrabústaðnum í dag að ekki væri að vænta ákvörðunar varðandi mögulegt samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) í kvöld.

Fram kom í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra að búast mætti við að þetta skýrðist fyrir fimmtudag. Fundarhöld hafa staðið yfir alla helgina um mögulega aðstoð IMF.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði á fundi Samfylkingarinnar í dag að samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn væri lykilatriði. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði að Samfylkingin hefði lagt þunga áhersu á að ná samkomulagi við sjóðinn.