„Við ræddum lítillega um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en það mál er ekki tækt til neinnar afgreiðslu ennþá“, sagði Geir H. Haarde um stöðu samninga Íslendinga við sjóðinn að afloknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hann sagði enn fremur að ástæðu þess vera að ekki lægi ljóst fyrir hvaða tillögur eða skilyrði kæmi frá sjónum. Ennþá væri verið að vinna í því.

Þegar tæpt var á hugsanlegum áhyggjum af því að Ísland gæti lent aftarlega í röð þeirra ríkja sem leituðu aðstoðar sjóðsins sagðist Geir ekki halda að nein hætta væri á því.

„Við erum að tala við sérfræðinga sem þekkja okkar mál og það er ekki víst að það fólk sé sérstaklega bundið í öðrum verkefnum.“ sagði Geir en hann gat ekki svarað því hverslu langan tíma þetta ferli tæki.