Breski bankinn Singer & Friedlandar (S&F), sem er í eigu Kaupþings banka, hefur áhuga á því að kaupa hlutabréfafyrirtæki á næstunni. Þetta kemur fram í samtali breska blaðsins Evening Standard við Ármann Þorvaldsson, forstjóra S&F.

Tilkynnt var í síðustu viku að Ármann tæki við sem forstjóri bankans en hann gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar á samstæðugrundvelli.

"Við erum opnir fyrir ýmsum möguleikum og höfum áhuga á að kaupa breskt hlutabréfafyrirtæki," sagði Ármann. Stjórnendur Kaupþings banka hafa áður sagt að þeir séu að leita eftir slíkum fyrirtækjum en þetta er í fyrsta skipti sem það kemur fram að kaupin fari líklega í gegnum S&F en ekki Kaupþing. Sérfræðingar búast þó við að S&F nafnið verði lagt niður bráðlega og bankinn algjörlega innlimaður inn í Kaupþing.

Kaupþing banki keypti S&F fyrir 547 milljónir punda (58,7 milljarðar íslenskra króna) fyrr á þessu ári. S&F seldi hlutabréfaeiningu sína, Collins Stewart, fyrir um fimm árum, segir í frétt Evening Standard, en Kaupþing banki hefur verið bendlaður við félagið. Einnig hafa fyrirtækin Numis Securities, sem Landsbanki Íslands gerði tilraun til að kaupa áður en hann landaði Teather & Greenwood, og miðlunarhúsið Bridgewell verið nefnd í þessu samhengi. Bridgewell var áður í eigu S&F en var keypt af stjórnendum árið 2000.

Með kaupunum á S&F hefur Kaupþing næstum tvöfaldað eignarstýringarviðskipti sín og nema þau nú um átta milljörðum punda (858 milljarðar íslenskra króna), segir í frétt Evening Standard. S&F flutti nýverið í nýtt húsnæði við Hanover-stræti í Mayfair-hverfi í vestur London. Bankinn var áður staðsettur í The City, sem er fjármálahverfi London. Skrifstofur Kaupþings banka eru við Bond-stræti í Mayfair.