Fasteignaverð í Kína hækkaði um 12,4% í maí sem er næst mesta meðaltalshækkun sögunnar samkvæmt upplýsingum hagstofu Kína. Enn er því ekki að merkjanlegt að meint fasteignabóla sé að springa. Er hækkunin nú lítið minni en í metmánuðnum apríl þegar hún var 12,8%.

Þrátt fyrir þessi tíðindi um hækkanir á fasteignamarkaði hefur fasteignaverð í mörgum borgum í Kína fallið um 40% á síðustu sex mánuðum samkvæmt tölum fasteignaráðagjafafyrirtækisins Soufun.com í Beijing. Vegna þessa er nú talað um að fasteignamarkaðurinn sé að lamast af ótta. Óvissan sé að stöðva frekari uppsveiflu á markaðnum. Fjárfestar fylgist því grannt með hvort kínversk yfirvöld muni leggja á nýja fasteignaskatta eins og rætt hefur verið um í borgum á borð við Shanghai og Chogqing.

Kevin Young aðstoðarforstjóri IFM Investments Ltd. Sagði í samtali við Wall Street Journal nýverið að þetta óttaástand gæti varað í næstu sex mánuði og væntanlegir kaupendur væru að vonast eftir verðlækkunum. Eigi að síður væri mikið að gerast á markaðnum og fjöldi fólks að leita eftir húsnæði. Hann segist búast við að fasteignaverð eigi eftir að lækka um 20% á næstu mánuðum.

Þrátt fyrir að margir telji fasteignabóluna í Kína vera komna langt upp fyrir raunhæft verð, þá hefur kínverska ríkinu í krafti efnahagsstyrkleika síns tekist að halda markaðnum furðu stöðugum. Þar skiptir líklega sköpum ofurtúr almennings á kínverska efnahagskerfinu. Reynslan úr öðrum heimshlutum sýnir þó að verðbólur á fasteignamarkaði í öflugum hagkerfum eins og í Bandaríkjunum geta hæglega sprungið með miklum látum og með alvarlegum afleiðingum.