Seðlabanki Tyrklands hefur lækkað stýrivexti um eitt prósentustig annan mánuðinn í röð, úr 13% í 12%. Á sama tíma mælist 80% verðbólga í Tyrklandi, að því er kemur fram í grein Wall Street Journal.

Seðlabankar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa hækkað vexti á undanförnum misserum til að stemma stigu við verðbólgunni. Englandsbanki, Svissneski seðlabankinn og Norski seðlabankinnn tilkynntu allir um 50 punkta hækkun í dag. Þá hækkaði Bandaríski seðlabankinn vexti um 75 punkta nú á dögunum.

Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti, sem hafnar þeirri almennu hagfræðikenningu að hærri vextir dragi úr verðbólgu, hefur skipað tyrkneska seðlabankanum að halda stýrivöxum langt undir ársverðbólgu. Þannig hefur Şahap Kavcioğlu, seðlabankastjóri, stutt kenningu Erdogan um að hærri stýrivextir leiði til meiri verðbólgu.

Sjá einnig: 80% verðbólga í Tyrklandi

Gjaldmiðill Tyrklands, líran, hefur tapað meira en helmingi af verðgildi sínu gagnvart Bandaríkjadollara á síðustu tólf mánuðum.

Veiking lírunnar á stóran þátt í vaxandi verðbólgu í landinu sem reiðir sig að miklu leyti á innflutning, sérstaklega þegar kemur að orku. Hækkandi verð á nauðsynjavörum eins og mat, bensín og lyfjum hefur þá aukið óánægju íbúa gagnvart Erdogan.