Ótti fjárfesta við greiðslufall Grikklands er orðinn mikill á ný og má sjá þess greinileg merki á hlutabréfamörkuðum Evrópu í morgun. Það sem af er degi hafa allar helstu hlutabréfavísitölur álfunnar hríðlækkað og heldur þróun föstudagsins því áfram, þróun sem magnast af því að bæði í Bandaríkjunum og Asíu hafa hlutabréfavísitölur lækkað mikið í millitíðinni.

Þannig hefur Eurostoxx-vísitalan lækkað um rúm 4% í dag sem og CAC-vísitalan franska. Þá hefur FTSE100 í Englandi lækkað um 2,3% og DAX í Þýskalandi um 2,9%. Í Stokkhólmi hefur OMXS30 vísitalan lækkað um tæp 2%.

Jafnframt hefur gengi evru ekki verið veikara gagnvart jeni í tíu ár en einmitt nú.