Gengi hlutabréfa Icelandair Group hefur lækkað um 0,59% það sem af er degi. Gengi bréfanna stendur nú í 16,9 krónum á hlut. Með lækkuninni nú hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 2,6% á einni viku.

Ekki er mikil velta á bak við gengislækkunina eða viðskipti upp á þrjár milljónir króna.

Stjórnendur Icelandair sendu frá sér afkomuviðvörun á sunnudag vegna verkfallsboðunar flugmanna. Í kjölfarið féll gengi hlutabréfa Icelandair Group strax um 3,5%. Gengislækkunin sneri við eftir því sem á leið daginn. Í afkomuviðvörun Icelandair kom fram að tap félagsins vegna verkfalls flugstjóra gæti orðið meira en 1,5-1,7 milljarðar króna. Í morgun var greint frá því að þjóðarbúið geti orðið af 4-5 milljörðum króna og það dregið úr hagvexti.

Í gær sendi Björgólfur Jóhannsson , forstjóri Icelandair Group, tóninn og sagði meðallaun flugmanna hafa hækkað mun meira en stjórnenda Icelandair Group.