Gengi hlutabréfavísitalna í Evrópu hefur lækkað frá opnun markaða í morgun, en lækkunina má að líkindum rekja til þeirrar pattstöðu sem upp er komin í samningaviðræðum lánardrottna við grísk stjórnvöld.

Samkvæmt frétt BBC News hefur FTSE vísitalan í Lundúnum lækkað um 0,74% það sem af er degi. Dax vísitalan í Frankfurt hefur lækkað um 1,44% og Cac vísitalan í París hefur lækkað um 1,32%. Er þetta þriðji dagurinn í röð sem vísitölurnar lækka.

Þá hafa hlutabréf á markaði í Aþenu lækkað skarpt undanfarna daga, en lækkunin frá opnun markaða í morgun nemur 1,3%. Í fyrradag lækkaði gengi bréfanna hins vegar um 4,7% og í gær um 5,9%.

Stórir gjalddagar eru framundan hjá Grikklandi gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nú í lok mánaðar, og er því naumur tími til stefnu til þess að ná samkomulagi.