Þótt bílasöluferlið hafi tekið miklum breytingum með tilkomu nýrrar tækni segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, bílasölumenn enn hafa hlutverki að gegna. „Menn hafa verið að spá dauða bílasölumannsins allt frá tilkomu internetsins, en hann er ennþá sprelllifandi. Þróunin er hins vegar ótvírætt í þá átt að meðalfjöldi heimsókna áður en kaupandi gengur frá kaupum hefur hríðlækkað, því fólk er oftast búið að kynna sér málin vel á netinu áður en það mætir og skoðar. Samskiptin við sölumenn eru því mun minni en áður. Í dag fær hann oftast bara eitt tækifæri til að sannfæra hugsanlegan viðskiptavin.“

Önnur tölfræði sem er lýsandi fyrir þessa þróun er að 85% þeirra sem koma í sýningarsal að skoða bíl eru búnir að kaupa bíl, einhvers staðar, innan viku. „Fólk er ekkert að fara í sýningarsali umboðanna bara til að drepa tímann. Menn hafa nóg annað við tímann að gera.“

Vélnám taki við tekjustýringu bílaleiga
Egill segir tekjustýringu bílaleigu – en Brimborg hefur rekið bílaleigu frá 2008 – afar flókna í framkvæmd. Hröð þróun tölvukerfa og gervigreindar geri hana þó sífellt skilvirkari. „Þetta er ekki ósvipað því sem flugfélögin gera, nema hvað ég held að þetta sé í raun aðeins flóknara í bílaleigubransanum. Þú þarft að vita hvaða bílar eru lausir og á hvaða tíma, og síðan þarftu að vera með verðið mjög misjafnt eftir árstíðabundinni eftirspurn. Þú þarft að vera með upplýsingar um ótrúlega margar breytur til að finna hagkvæmasta verðið hverju sinni.“

Verðinu er enn handstýrt í dag, en Egill segir stutt í að hugbúnaður sjái alfarið um stýringuna. „Allar bókanir koma inn sjálfvirkt. Við erum enn að stýra verðinu handvirkt, en við erum að þróa kerfi sem notar vélnám til að ákvarða verðið sjálfvirkt í rauntíma með eistnesku hugbúnaðarfyrirtæki.“

Nánar er rætt við Egil í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .