Fasteignafélagið Nýsir hefur gert samning við Landsbankann um aðstoð við sölu á eignum, öflun nýs hlutafjár og fjárhagslega endurskipulagningu lána til að tryggja framgang þeirra verkefna sem félagið er með í þróun, vegna erfiðrar stöðu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Stilla saman skuldum betur í takt við tekjur

„Endurskipulagningin lýtur að því að stilla saman og endurskipuleggja skuldirnar á þá vegu, að þær séu í meira í takt við tekjustreymi félagsins. Skammtímaskuldir félagsins séu of hátt hlutfall af heildarskuldum," segir Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri Nýsis.

Hann segir að félagið sé í verkefnum, líkt og einkaframkvæmd í tíu skólum í Aberdeen í gegnum fasteignarekstrarfélag í Bretlandi.Tekjur af því verkefni mun ekki byrja að koma inn fyrr en árið 2010. Félagið er mikið í fjárfestingar- og þróunarverkefnum sem afla tekna til lengri tíma litið því er mikilvægt að breyta skamtímalánum í langtímalán.

Aðspurður um hvað hann búist við að hlutafé verði aukið mikið, segir hann að það sé ekki endanlega komið á hreint. „Það er ljóst við munum skoða það að fá nýja hluthafa að félaginu," segir Höskuldur.

Selja eignir sem ekki tilheyra kjarnastarfssemi

Nýsir ætlar að einbeita sér að kjarnastarfssemi sinni, og selja þær eignir sem ekki tilheyra henni frá félaginu. Kjarnastarfssemi þess er fasteignarekstur, fasteignaumsjón og einkaframkvæmdarverkefni. „Við erum með ýmis hliðarfyrirtæki, sem við erum hluthafar í, og munum væntanlega fara út úr," segir Höskuldur.

Ekki áhrif á byggingu tónlistarhúss

Aðspurður hvort þessi endurskipulagning muni hafa áfram á framkvæmdir við tónlistar- og ráðstefnuhúsið við austurhöfnina í Reykjavík, sagði hann svo ekki vera.

„Nei, þessi fjárhagslega endurskipulagning sem við erum að fara í, hefur ekki nein áhrif á Portus verkefnið, þær framkvæmdir eru á eðlilegum hraða," segir hann.

Spurður hvort að fjármögnun við það verk hafi verið tryggt fyrir fram, bendir Höskuldur á að Landsbankinn eigi helminginn í eignarhaldsfélaginu Portus, sem standi að byggingunni. „Landsbankinn leiðir þá vinnu við að fjármagna það verkefni," segir hann.

Stefna á sölu eigna og vaxandi tekjur

Nýsir tapaði 2,3 millörðum króna árið 2007, samanborið við tap upp á 466 milljónir króna árið áður. Að teknu tilliti til tekjuskatts skuldbindingar var eiginfjárhlutfallið árið 2007, 12% samanborið við 21% árið áður. Félagið velti 9,3 milljörðum árið 2007 en 3,9 milljónum árið áður.

Þrátt fyrir það að stefnt sé að því selja eignir, er gert ráð fyrir að tekjur vaxi í 11-12 milljarðar króna á næsta ári. Höskuldur segir meginþorra væntrar aukningar koma frá fasteignaumsjónafélaginu Operon í Bretlandi. „Félagið hefur verið að bæta við sig verkefnum í fasteignaumsjóninni, sérstaklega í opinbera geiranum; heilbrigðis- og menntageiranum," segir hann.