Stór hluti starfsmanna við gerð Vaðlaheiðargangna eru erlendir, en erfitt hefur reynst að fá Íslendinga til verksins. Um helmingur þeirra sem starfa við jarðgöngin í dag eru Íslendingar en þeim hefur hins vegar fækkað á síðustu mánuðum, að því er fram kemur í norðlenska fjölmiðlinum Vikudegi.

Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri Ósafls, segir í samtali við Vikudag að erfitt hafi reynst að fá íslenska starfsmenn til verksins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fyrirtækisins. Hann segir að Ósafl hafi síðast auglýst eftir mannskap fyrir um mánuði síðan en enginn hafi sótt um sem stóðst kröfur. Þess vegna hafi fyrirtækið þurft að fá erlent vinnuafl.