*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 28. nóvember 2016 15:53

Erfitt að meta árangur sérstaks

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um embætti sérstaks saksóknara kemur fram að erfitt hafi verið að meta árangur embættisins.

Ritstjórn
Ólafur Þór Hauksson, var skipaður í embætti sérstaks saksóknara árið 2009.
Haraldur Guðjónsson

Í nýrri skýrslu sem Ríkisendurskoðun vann um embætti sérstaks saksóknara kemur fram að: „Erfitt er að meta árangur embættis sérstaks saksóknara þegar litið er til málsmeðferðar, nýtingar fjármuna og skilvirkni á starfstíma þess árin 2009–15. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. sú að hvorki er kveðið á um árangursviðmið í lögum um meðferð sakamála né lögreglulögum.

Þá voru ekki sett sérstök árangursmarkmið eða mælanleg viðmið fyrir embætti sérstaks saksóknara þegar það hóf starfsemi sína. Loks er ógerlegt að meta hve mörgum vinnustundum embættið varði í einstök mál og kostnaðinn sem féll til vegna þeirra þar sem tímaskráning þess var ófullnægjandi. Að mati Ríkisendurskoðunar væri æskilegt að þróa árangursviðmið fyrir stofnanir réttarvörslukerfisins. Gæta þarf þó að því að slík viðmið ógni ekki sjálfstæði stofnananna eða hafi óæskileg áhrif á málsmeðferð þeirra og ákvarðanir.“

Endanleg dómsniðurstaða í níu „hrunmála“

Embætti sérstaks saksóknara tók við 806 málum á starfstíma sínum og þar af afgreiddi það 672 mál fyrir árslok 2015 en málsmeðferð þeirra 134 mála sem eftir stóðu fluttust yfir til nýstofnaðs embættis héraðssaksóknara. Alls voru 208 af verkefnunum 806 tengd efnahagshruninu og lauk embættið meðferð 173 þeirra 27 voru í vinnslu og átta biðu afgreiðslu. Alls fóru 46 hrunmál í ákærumeðferð og þar af fékkst endanleg dómsniðurstaða í níu málanna.

Einnig er tekið fram í skýrslunni að: „Almennt reyndist meðferð hrunmála bæði tímafrek og kostnaðarsöm. Mörg þeirra voru flókin í rannsókn, stundum teygði rannsóknin sig út fyrir landsteinana og oft varð löng bið eftir gögnum. Oft gripu sakborningar líka til viðamikilla varna þar sem reyndi á réttarfarsleg atriði.“