Gengi hlutabréfa samfélagsmiðilsins Twitter féll um ríflega 12% fyrr í dag eftir að félagið greindi frá afkomu fyrsta ársfjórðungs. Reuters greinir frá.

Tekjur og fjöldi notenda voru að mestu í samræmi við spár greiningaraðila, sem höfðu reiknað með að 2021 yrði ekki jafn gjöfult og árið 2020, er hin ýmsu stóru málefni, líkt og forsetakosningar vestanhafs, hjálpuðu til við að auka notendafjölda og tekjur samfélagsmiðilsins. Greinendur hafa jafnframt varað við að yfirstandandi ársfjórðungur geti orðið enn verri en fyrsti ársfjórðungur þessa árs.

Haris Anwar, yfirmaður greiningardeildar Investing.com, segir það ljóst að Twitter muni eiga erfitt með að ná jafn góðu ári og í fyrra, þar sem að afléttingar á samkomutakmörkunum muni væntanlega leiða til þess að fólk eyði minni tíma á Twitter og meiri tíma í afþreyingu utan heimilisins.