Einungis þrír viðskiptadagar eru nú eftir af árinu á Wall Street, svartasta ári á hlutabréfamörkuðum vestra frá því Herbert Hoover var forseti. Þetta kemur fram á vef MSNBC.

Hlutabréfaverð hrundi á árinu, en Dow Jones vísitalan féll til að mynda um 36,2%, sem er mesta lækkun síðan árið 1931 þegar mikla kreppan leiddi til 40,6% lækkunar á hlutabréfum.

Allt útlit er fyrir að árslækkun Standard & Poor's vísitölunnar verði sú mesta frá því hún var fyrst tekin saman, árið 1957, en hún hefur fallið um rúm 40% á árinu.

Ef litið er á þessar staðreyndir er engin furða að fjárfestar séu fegnir því að einungis nokkrir dagar séu eftir þar til bókum ársins 2008 verður lokað. Greinendur horfa nú til janúar, sem er mikilvægur mánuður fyrir markaðinn. Í kringum 7.300 milljarðar dollara hafa nú tapast ef horft er til Dow Jones Wilshire 5000 vísitölunnar, sem er breiðasti mælikvarði á hlutabréfaverð í Bandaríkjunum.