Sænska fjarskiptafyrirtækið Ericsson tilkynnti í dag að félagið hefði sagt upp 10.000 starfsmönnum á fjórða ársfjórðungi 2017 en félagið vinnur nú að því að snúa rekstri sínum við að því er The Wall Street Journal greinir frá.

Ericsson tilkynnti um uppsagnirnar þegar það tilkynnti að afkoma félagsins hefði verið neikvæð fimmta ársfjórðunginn í röð. Tapið á fjórða ársfjórðingi nam 18,9 milljörðum sænskra króna sem jafngildir 242 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag. Á sama tímabili í fyrra tapaði félagið um 1,6 milljarði sænskra króna.

Tekjur félagsins drógust saman um 8 milljarða sænskra króna milli ára en þær voru um 57,2 milljarðar sænskra á tímabilinu í ár.

Ericsson hefur verið fremst í flokki þegar kemur að búnaði í fjarskipamöstur og aðra fjarskiptainnviði en hefur á síðustu árum þurft að mæta harðnandi samkeppni, einkum frá kínverskum keppinautum.