Í marsmánuði jukust erlendar skuldir heimila úr 164 milljörðum króna í 203 milljarða króna. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis og er þar vitnað í tölur frá Seðlabankanum.

Sé leiðrétt fyrir lækkun gengis krónunnar miðað við gengisvísitölu, stendur eftir 3,3% raunaukning erlendra skulda. Ætla má að  erlendar skuldir heimilanna hafi aukist um nálægt 33 milljarða króna vegna lækkunar gengis krónunnar í marsmánuði.

„Þó má gera ráð fyrir að þessi aukning gangi að einhverju leyti til baka gangi gengisspá okkar eftir. Við gerum ráð fyrir því að gengi krónunnar hækki á síðari hluta ársins og að gengisvísitalan verði 135 stig í lok árs, en hún er nú um 150 stig,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Skuldir heimilanna við innlánsstofnanir námu um 928 milljörðum króna í lok mars. Gengistengdar skuldir heimila hafa því hækkað úr 18% í lok febrúar í tæplega 22% af heildarskuldum þeirra við innlánsstofnanir.

„Einnig má ætla að þetta hlutfall lækki samhliða aukinni verðbólgu á næstu mánuðum og áðurnefndri hækkun gengis krónunnar,“ segir í Morgunkorni.

Innlán aukast mikið

Innlán innlendra aðila í lok mars námu 1.385 milljörðum króna samanborið við 824 milljarða á sama tíma 2007.

Á móti hafa útlán innlendra aðila einnig aukist mikið, en þau námu 4.103 milljörðum króna í lok síðasta mánaðar, samanborið við 2.540 milljarða árið áður.

„Þessi mikla aukning kemur til, auk aukinnar lántöku, vegna verðbólgu og lækkunar gengis krónunnar,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.