Heldur virðist hafa slegið á væntingar neytenda á nýju ári en þó eru þeir enn bjartsýnir á framþróun í hagkerfinu, segir greiningardeild Glitnis.

?Væntingavísitala Gallup fyrir janúar mælist 128,6 stig og lækkar frá fyrri mánuði um tíu stig. Vísitalan er þó lítið eitt hærri en í sama mánuði í fyrra, áður en gengi krónu lækkaði og verðbólguskot reið yfir í kjölfar gagnrýninnar erlendrar umfjöllunar um íslenska hagkerfið og stöðu íslensku bankanna.

Íslenskir neytendur telja horfur góðar ef horft er sex mánuði fram í tímann. Væntingar til næstu sex mánaða standa þannig nánast í stað frá desember meðan mat á núverandi ástandi lækkar nokkuð milli mánaða. Þó eru þeir sem telja núverandi ástand gott tvöfalt fleiri en hinir sem telja það slæmt,? segir greiningardeildin.

Hugur í neytendum þrátt fyrir lægra gengi krónu
Hún segir að verulegt bakslag hafi komið í væntingar neytenda í kjölfar þeirra sviptinga sem urðu á fjármálamörkuðum á fyrri hluta síðasta árs. ?Gengi krónunnar lækkaði hratt á þessum tíma en fylgni væntinga við gengi krónu er töluvert mikil. Þótt krónan hafi ekki nálgast fyrri hæðir hafa neytendur þó sótt í sig veðrið og er væntingavísitalan nú á svipuðum slóðum og á seinni hluta ársins 2005,? segir greiningardeildin.

Umtalsverður munur er á væntingum eftir tekjuhópum. ?Þannig eru þeir sem hafa tekjur á bilinu 250-399 þúsund krónur á mánuði áberandi meira svartsýnir en þeir sem hafa annað hvort lægri tekjur eða hærri.

Snarpur viðsnúningur hefur einnig orðið meðal yngstu svarendanna. Undirvísitala fyrir þátttakendur á aldrinum 16-24 ára lækkar um 23 stig á milli mánaða en svarendur á þessum aldri hafa verið einna bjartsýnastir þátttakenda í könnun Gallup undanfarin misseri,? segir greiningardeildin.