Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkti þá ríkisaðstoð sem veitt var til endurskipulagningar á Íslandsbanka eftir að Glitnir fór í þrot í október árið 2008.

Í ákvörðun ESA er m.a. rifjað upp að í framhaldi af hruni Glitnis hafi innlend starfsemi bankans verið færð til sem og að mestu innlendar eignir og skuldbindingar. Við endurreisnina hafi íslensk stjórnvöld veitt nýja bankanum ríkisaðstoð í formi eiginfjárframlaga, lausafjárfyrirgreiðslu og ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar á innlánum í innlendum bönkum og sparisjóðum.

Ríkisaðstoðin var hins vegar veitt áður en hún var tilkynnt til ESA og því ákvað stofnunin að hefja formlega rannsókn á endurreisn bankans. Bent er á að í mars í fyrra hafi stjórnvöld upphaflega lagt fram áætlun um endurskipulagningu, en breytt henni í febrúar síðastliðnum.

Í ákvörðun ESA segir að með þessari endanlegu ákvörðun varðandi ríkisaðstoð til Íslandsbanka er lokið einu af veigameistu málunum sem ESA hefur haft til rannsóknar í kjölfar hruns fjármálakerfisins á Íslandi árið 2008.

Við rannsóknina hefur verið lagt mat á það hvort aðstoðin teljist samrýmanleg EES-samningnum á grundvelli b-liðar, 3. málsgreinar 61. greinar samningsins. Það ákvæði heimilar að samþykkja aðstoð til að ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi EES-ríkis.

Í ákvörðuninni segir eftirfarandi:

„Hvað varðar endurnýjun á rekstrarhæfi bankans til frambúðar er í ákvörðun ESA lögð áhersla á að þótt bankinn og íslenskt efnahagslíf mæti ennþá áskorunum, hefur Íslandsbanki tekist á við brotalamir forvera síns. Bankinn býr nú við sterkt eiginfjárhlutfall og hefur náð árangri varðandi endurskipulagningu lána skuldsettra viðskiptavina sinna. ESA hefur einnig tekið tillit til þess að margvíslegar umbætur hafa verið gerðar á löggjöf um fjármálastarfsemi frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008. Þessar breytingar hafa styrkt regluverk um fjármálastarfsemi á Íslandi og þar með aukið á öryggi í rekstri fjármálafyrirtækja.

Þar sem fyrrum eigendur Glitnis banka hafa glatað hlutafjáreign sinni og lánadrottnar bankans þurfa einnig að sæta miklu tapi, telur ESA að kröfu um nægjanlegt framlag eigenda og fjárfesta sé mætt og bót sé ráðin á svonefndum freistnivanda.“

Ákvörðun ESA