Víkingur Reykjavík og Breiðablik, tvö bestu lið Bestu deildar karla, eru nú í baráttu um að komast sem lengst í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu, í von um að komast í riðlakeppni deildarinnar. Miklar fjárhæðir eru í húfi í gegnum verðlaunafé UEFA, en vefsíðan UEFA Prize Money Calculator gerir fólki kleift að reikna út hversu mikið er í húfi.

Eftir leikina sem Víkingar hafa spilað, við eistneska liðið FCI Levadia, Andorrameistarana Inter Club d‘Escaldes og sænsku meistarana í Malmö, hafa þeir sankað að sér 560 þúsund evrum, eða sem nemur 78 milljónum króna.

Víkingar eru nú 1-0 yfir eftir fyrri leikinn gegn Lech Poznan, en liðið spilar seinni leikinn ytra í Poznan þann 11. ágúst. Ef þeir ná hagstæðum úrslitum er liðið komið áfram í umspil um laust sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Þar munu Víkingar mæta tapliðinu úr rimmunni á milli Malmö, góðvina Víkinga, og Dudelange frá Lúxemborg. Malmö vann fyrri leikinn 3-0 og má því gera ráð fyrir því að Víkingar lendi gegn Dudelange.

Þremur leikjum frá 480 milljónum

Nú skulum við fara í ef og hefði leikinn góða. Ef Víkingar detta út gegn Lech Poznan fær félagið greiddar 550 þúsund evrur til viðbótar. Er heildarverðlaunaféð þá komið upp í 1,21 milljónir evra eða sem nemur 169 milljónum króna. Ef þeir sigra hins vegar Lech Poznan, en tapa síðan í umspilinu gegn Dudelange/Malmö, fá þeir 750 þúsund evrur í sinn hlut sem gera 1,51 milljón evra í heildarverðlaunafé, eða um 211 milljónir króna.

Nú ætlar blaðamaður að leyfa sér að dreyma og reikna með því að Víkingar fari bæði í gegnum Lech Poznan og Dudelange/Malmö. Heildarverðlaunafé sem fer í hlut Víkinga, burt séð frá því hvernig leikir liðsins í riðlakeppninni fara, nemur þá 3.437.500 evrum, eða um 480 milljónum króna.

Hvert lið í Sambandsdeildinni spilar sex leiki í riðlakeppninni. Fyrir hvern sigur fær lið 500 þúsund evrur, og fyrir hvert jafntefli 166 þúsund evrur. Ef við gerum ráð fyrir að Víkingar nái að kreista fram einum sigri og einu jafntefli er heildarupphæðin komin upp í 4,15 milljónir evra, eða sem nemur 580 milljónum króna.

Blikar í erfiðri stöðu

Breiðablik hafa sigrað bæði Unió Esportiva Santa Coloma frá Andorra og svartfellska liðið Buducnost Podgorica. Liðið fékk 200 þúsund evrur í sinn hlut fyrir þá sigurleiki, eða sem nemur 28 milljónum króna. Blikar eru nú í miðri rimmu við İstanbul Başakşehir, en liðið tapaði fyrri leiknum 1-3, og eru því í erfiðri stöðu fyrir seinni leikinn í İstanbul.

Liðið mun fá 550 þúsund evrur í sinn hlut ef það dettur út á móti İstanbul. Heildarverðlaunafé Blika yrði þá 850 þúsund evrur, eða sem nemur 118 milljónum króna.

Ef Blikum tekst hið ótrúlega og sigra İstanbulmenn með tveimur mörkum eða meira á útivelli, þá komast þeir í umspil um laust sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Verði það síðasta stopp Blika enda þeir með 1,15 milljónir evra, eða sem nemur 160 milljónum króna.

Komist Blikar hins vegar í riðlakeppnina enda þeir með rúmlega 3,3 milljónir evra, um 460 milljónir. Nái þeir að kreista fram einum sigri og einu jafntefli í riðlakeppninni, munu þeir í heildina fá rétt rúmlega 4 milljónir evra í verðlaunafé, eða um 560 milljónir króna.

Stórar upphæðir fyrir íslenska boltann

Breiðablik og Víkingur R. geta fengið nærri hálfan milljarð hvor í sinn hlut, ef þeim tekst að komast í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu, eða nánar tiltekið um 460-480 milljónir króna. Það er þó verk að vinna, en ekkert íslenskt félag í sögunni hefur komist í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, Evrópudeildar eða Sambandsdeildar Evrópu.

Þegar verðlaunafé UEFA er borið saman við heildarveltu knattspyrnudeildar félaganna má sjá að um er að ræða háar upphæðir í íslensku samhengi. Heildarvelta knattspyrnudeildar Víkings var 301 milljón króna á síðasta ári. Heildarvelta knattspyrnudeildar Breiðabliks var hins vegar tvöföld þeirra Víkinga á sama tímabili, og nam 615 milljónum króna.