Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ekki skilað skýrslu um „Réttindi og skyldur eldri borgara“ sem óskað var eftir á Alþingi i vor.

Jón Þór Ólafsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, óskaði ásamt 11 öðrum þingmönum eftir skýrslu frá ráðherra nú í vor. Samkvæmt 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er ráðherra skylt að skila inn skýrslu um tiltekið málefni ef níu þingmenn óska þess. Frestur ráðherra til að skila skýrslunni eru tíu vikur, en þessi frestur rann út þann 20. júlí sl.

Jón Þór hefur sent forseta Alþingis póst þar sem óskað er eftir því að forseti þingsins kalli eftir því að ráðherra ljúki skýrslugerðinni og skili til Alþingis.