Enn er óvíst hvort eldgos sé hafið í Eyjafjallajökli, flugvélar hafa þó tilkynnt um gufubólstra upp úr skýjum yfir jöklinum. Einnig er staðfest að vöxtur sé í ám við jökulinn. Þá sagðist íbúi á Hvolsvelli í samtali við Viðskiptablaðið rétt í þessu telja sig sjá eitthvað sem líktist gufubólstri vestantil á jöklinum, en vildi ekki fullyrða að þar gæti verið eldgos undir.

Gosórói hefur verið á mælum Veðurstofu í nótt og hófst hrina jarðskjálfta um klukkan 23 í gærkvöld. Var talið víst að gos væri að hefjast og var því gripið til þess ráðs í nótt að rýma svæðið í kringum jökulinn. Þurftu um 700 manns að yfirgefa heimilis sín og leita til skilgreindra neyðarstöðva. Flugvél Landhelgisgæslunnar er nú á leið að jöklinum þar sem menn munu reyna að staðfesta hvort gos sé hafið eða ekki.