Félag atvinnurekenda leggst eindregið gegn afnámi heimildar Samkeppniseftirlitsins (SKE) til að bera ákvarðanir áfrýjunarnefndar samkeppnismála (ÁNS) undir dómstóla. Þetta kemur fram í umsögn FA um drög að frumvarpi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til breytinga á samkeppnislögum, en þar er að finna tillögu um afnám þessarar heimildar SKE.

Í umsögn FA segir að með slíkri lagabreytingu væri verið að „veikja stöðu Samkeppniseftirlitsins, í þágu fyrirtækja sem hafa brotið eða vilja brjóta samkeppnislög en slík brot eru skaðleg bæði neytendum og smærri og meðalstórum fyrirtækjum. Með því að samþykkja umrædda breytingu væri Alþingi að ganga erinda stórfyrirtækja sem vilja komast hjá réttmætum afleiðingum samkeppnislagabrota sinna og viðhalda háttsemi sem skaðar allan almenning. Þannig tæki þingið sér stöðu gegn almenningi í landinu, sem og gegn smærri og meðalstórum fyrirtækjum sem hvað mesta hagsmuni eiga af því að farið sé að ákvæðum samkeppnislaga.“

Færð eru rök fyrir því í umsögn FA að íslenskt réttarfar hafi ákveðna sérstöðu að þessu leyti; dómaframkvæmd hafi takmarkað aðild og aðgengi að dómstólum verulega umfram það sem leiða megi beint af texta laga um meðferð einkamála. „Sérstakt lagaákvæði um aðild Samkeppniseftirlitsins að dómsmálum til ógildingar á niðurstöðum ÁNS vinnur gegn þessum meinbugi og tryggir þar með hagsmuni fyrirtækja, neytenda og alls almennings,“ segir í umsögninni.