Facebook er sagt hafa sloppið vel með 5 milljarða dollara sekt, jafngildi 630 milljarða króna. Viðskiptastofnun Bandaríkjanna, Federal Trade Commission (FTC), leggur til að sekta eigi Facebook vegna ítrekaðra brota á persónuverndarlögum. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur málið nú til skoðunar. Þrír fulltrúar í stjórn FTC repúblikana greiddu atkvæði með sektargreiðslunni gegn tveimur atkvæðum fulltrúa demókrata.

Sektin yrði sú hæsta í sögu FTC. Í samanburði við þá fjármuni sem Facebook hefur úr að spila er sektin hins vegar talin hafa óveruleg áhrif. Í umfjöllun The Verge um málið er bent á að hlutabréfaverð í Facebook hafi hækkað eftir að tilkynnt var um ákvörðun FTC.

Tekjur Facebook á fyrstu þremur mánuðum þessa árs námu 15 milljörðum dollara, og hagnaður ársins 2018 nam 22 milljörðum dollara. Markaðsvirði félagsins er sem stendur 584 milljarðar dollara. Sektin samsvarar því um mánaðartekjum hjá Facebook, um það bil þriggja mánaða hagnaði eða 0,8% af markaðsvirði félagsins.

Facebook tilkynnti í vor að það myndi leggja þrjá milljarða dollara til hliðar vegna mögulegrar sektar, sem gæti orðið allt að fimm milljarða dollara.

Facebook hefur áður verið staðið að sambærilegu athæfi. Árið 2011 náð gerði það sátt við FTC árið 2011 fyrir brot á persónuverndarlögum en það virðist lítið hafa gert til að hindra Facebook í að brjóta af sér. Fyrirtækið þarf að útskýra hvernig það mun nýta persónuupplýsingar áður en það kynnir nýjar vörur og stjórnendur Facebook þurfa að lofa að virða persónuupplýsingar notenda. Engu síður er talið að lítið í ákvörðuninni sem komi í veg fyrir að Facebook brjóti af sér á ný, séu viðurlögin ekki harðari en raun ber vitni.