Færri Íslendingar fóru í utanlandsferðir í júlí síðastliðnum en í fyrra. Munurinn nemur 5% á milli ára en brottfarir Íslendinga námu 33.400 í júlí borið saman við 35.100 í júlí í fyrra. Þetta er annar mánuðurinn í röð sem dregur úr utanferðum, að því er fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka .

Fram kemur í Morgunkorninu að í júní síðastliðnum nam samdrátturinn 8% á milli ára. Það sem af er ári hafa utanferðir Íslendinga dregist saman um rúmlega 1% frá í fyrra.

Greining Íslandsbanka segir þessa þróun aðra en hún hafi búist við enda hafi ýmislegt bent til þess að Íslendingar yrðu meira á faraldsfæti nú í ár en í fyrra.

„Þannig hafa niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup fyrir fyrstu tvo fjórðunga ársins bent til þess að landsmenn væru nokkuð líklegri til þess að láta undan útþrá sinni næsta árið en þeir voru á sama tíma í fyrra. Þar að auki var talsverður fréttaflutningur fyrr í sumar af því að Íslendingar væru margir hverjir orðnir langþreyttir á veðrinu, og því hefði salan í utanlandsferðum aukist talsvert,“ segir í Morgunkorninu.