Fáfnir Offshore tapaði 3,4 milljónum norskra króna á síðasta ári eða um 50 millj­ónum íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins en það sérhæfir sig í þjónustu við olíu- og gasborpalla auk annarra verkefna á norðurslóðum.

Árinu áður tapaði fyrirtækið rétt rúmri einni milljón norskra króna eða um 15 milljónum íslenskra króna. Heildarvelta fyrirtækisins árið 2014 nam 33,2 milljónum norskra króna eða 491 milljón króna.

Eigið fé í lok árs nam 193,5 milljónum norskra króna (2,9 milljarðar íslenskra króna). Í lok síðasta árs keypti Akur fjárfestingar, framtakssjóður í rekstri Íslandssjóða, 30% hlut í Fáfni Offshore fyrir 1.260 millj­ónir íslenskra króna.

Fyrrverandi framkvæmdastjóra Fáfnis Offshore, Steingrími Erlingssyni, var sagt upp störfum í vikunni. Viðskiptablaðið greindi frá þessu í gær.