Í janúar nam fjöldi farþega í millilandaflugi hjá Icelandair 151 þúsund og jókst hann um 21% miðað við janúar á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Framboð í millilandaflugi var aukið um 14% á milli ára. Sætanýtingin var 76,7% og jókst um 6,2 prósentustig miðað við sama tímabil í fyrra og hefur aldrei verið meiri í janúarmánuði.

Fjöldi farþega í innanlands- og Grænlandsflugi var um 20 þúsund í janúar og fækkaði um 4% á milli ára. Framboð í janúar var 2% minna en í janúar á síðasta ári og sætanýting var 66,9% samanborið við 68,9% í janúar 2014. Seldir blokktímar í leiguflugi voru 33% færri en í janúar á síðasta ári. Þá minnkuðu fraktflutningar um 4% á milli ára.

Seldar gistinætur hjá Flugleiðahótelunum jukust hins vegar um 31% á milli ára. Herbergjanýting var 67,2% eða 15,8 prósentustigum hærri en í janúar 2014.