Velta á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu var 16% meira á fyrstu 28 vikum ársins en á sama tímabili í fyrra. Í samanburði við árið 2012 var aukning um 41% á tímabilinu. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Veltan fyrstu 28 vikur ársins frá 2007-2014 var birt hjá Þjóðskrá. Á því tímabili var veltan hæst 2007, lægst 2009 en hefur ekki verið hærri en árið 2014 síðan 2007.

Meðalupphæð kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu fyrstu 28 vikur ársins var 36,3 milljónir króna, í samanburði við 34,6 milljónir á sama tímabili í fyrra og 32 milljónir árið 2012. Því er um að ræða 13,4% aukningu í meðalupphæð kaupsamninga síðan 2012.

Dæmi eru nú um að nýjar íbúðir seljist löngu áður en þær eru fullbúnar. Til að mynda hefur þriðjungur íbúða selst í fjölbýlishúsi sem verið er að byggja við Stakkholt í Reykjavík.