Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2% milli mánaða í október. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans . Þar er talað um; „hressilega hækkun fasteignaverð í október.“

Þar af hækkaði verð á fjölbýli um 1,8% og verð á sérbýli um 2,2%. Heildarhækkunin á húsnæðisverði á síðustu 12 mánuðum hefur verið 13,6%. Þar af hefur verð á fjölbýli hækkað um 13,6 og á sérbýli um 14,2%.

Raunverð hækkar

Vísitala neysluverðs án húsnæðis nú í oktbóer var 0,5% lægri en í september á síðasta ári því koma allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið fram sem raunverðshækkun og rúmlega það.

Hagfræðideild Landsbankans bendir einnig á að verðbólga hafi verið lág og stöðug upp á síðkastið og því hefur raunverð fasteigna hækkað meira en annars hefði orðið. Raunverð fjölbýlis hefur til að mynda hækkað um 50% frá upphafi ársins 2011 og raunverð sérbýlis um 30%.

Markaðurinn er mettaður

Meðalviðskipti með fasteignir í október voru örlítið meiri en var á öllu árinu 2015. Viðskipti með fjölbýli eru hins vegar svipuð. Eftir mikla aukningu fasteignaviðskipta á árinu 2015 virðist þó vera að markaðurinn sé að falla í svipað horf og hann var með á árabilinu 2011 til 2015, með hóflegri aukningu.

Almennt er talið að mikil eftirspurn sé eftir húsnæði, þá sér í lagi minni íbúðum - en þeirri eftirspurn verður líklega ekki mætt. „Almennt mætti segja að skortur á framboði íbúða, ásamt mikilli kaupmáttaraukningu, sé helsti skýringarþáttur mikilla verðhækkana á síðustu misserum,“ segir í greiningu bankans.

Hlutfall nýrra íbúða langhæst í Garðabæ

Hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum, en það er langhæst í Garðabæ - eða 43% af hlutfalli eins og tveggja ára íbúða af sölu árið 2016 og 26% að meðaltali á síðustu fjórum árum. Hins vegar hefur einungis 3% af viðskiptum í Reykjavík verið með nýjar íbúðir og 2% í ár.