Þrátt fyrir að seðlabanki Japans hafi hækkað stýrivexti upp í 0.5% í gær veiktist jenið á gjaldeyrismörkuðum. Þetta þykir til marks um að ákvörðunin verði ekki til þess að draga úr áhuga alþjóðlegra fjárfesta á vaxtamunarviðskiptum - fjárfesting í hávaxtamyntum með fé frá lágvaxtamyntsvæðum eins og Japan - þar sem að væntingar eru um að munur á stýrivöxtum milli japanska hagkerfisins og annarra verði áfram mikill. Ekki síst í ljósi þess að búist er við að vextir hækki hraðar í öðrum hagkerfum. Mikil vaxtamunarviðskipti undanfarin misseri hafa átt sinn þátt í að viðhalda hækkunum á hlutabréfa- og á fasteignamörkuðum víðsvegar um heim og telja margir hagfræðingar að hætta kunni að stafa af þeim fyrir hagkerfi heimsins.

Tvennt styður þessa skoðun. Í fyrsta lagi er talið ólíklegt að japanski seðlabankinn hækki aftur vexti í bráð og styðja ummæli ráðamanna hans í kjölfar vaxtarákvörðunarinnar þá skoðun. Hann hefur aðeins hækkað vexti tvisvar í tæp sjö ár vegna stöðugs ótta við verðhjöðnun í hagkerfinu. Þrátt fyrir að hagvöxtur hafi mælst meiri á fjórða ársfjórðungi en væntingar voru um bendir fátt til þess að verðhjöðnunarvofan hafi verið algjörlega kveðin niður.

Í öðru lagi vænta fjárfestar þess að vextir fari hækkandi í öðrum heimshlutum. Búist er við að stýrivextir á Nýja-Sjálandi, sem hefur verið vinsælt meðal þeirra fjárfesta sem stunda vaxtamunarviðskipti, fari upp í 7.5% á næstunni. Þrátt fyrir að Englandsbanki hafi ákveðið að hækka ekki vexti í vikunni telja margir að þeir verði komnir í 5.5% innan tíðar og flestir veðja á áframhaldandi vaxtahækkunarhrinu á evrusvæðinu.

Hinsvegar er vert að hafa í huga að jenið er ekki eina lágmyntin sem hefur notið vinsælda meðal fjárfesta sem stunda vaxtamunarviðskipti. Svissneski frankinn hefur einnig verið notaður í slíkum viðskiptum. Gengi frankans hefur ekki verið lægra gagnvart evru í níu ár, en hinsvegar varaði seðlabankastjóri Sviss, Jean-Pierre Roth, fjárfesta við því að nota gjaldmiðil landsins í vaxtamunarviðskiptum. Varúðarorð hans þykja til marks um að hækkun stýrivaxta kunni að vera yfirvofandi. Hinsvegar höfðu þau ekki áhrif á markaðinn í gær og rétt eins og jenið þá styrktist frankinn ekki í kjölfar þeirra.

Flestir sérfræðingar telja að fá teikn séu á lofti um að vaxtamunarviðskipti fari minnkandi á næstunni. Þrátt fyrir að hagfræðingar hafi varað við afleiðingum þeirra fyrir alþjóðahagkerfið og ríki Evrópusambandsins kvartað yfir þeim, bendir fátt til þess að seðlabankinn hafi áhyggjur af stöðu mála og muni grípi til aðgerða. Vaxtamunarviðskiptin halda gengi jensins lágu gagnvart öðrum gjaldmiðlum og styrkir því útflutningsiðnað landsins. Líklegra þyki að atburðir annarstaðar í heiminum verði til þess að stórlega dragi úr vaxtamunarviðskiptum. Sérfræðingar nefna sérstaklega hættuna á að skyndilega springi fasteignabólan í Suður-Kóreu eða þá að röð vaxtalækkana, sem myndi draga úr vaxtamuninum við Japan, verði í Bandaríkjunum. Í ljósi nýjustu verðbólgumælinga í Bandaríkjunum þykir þó ekki mikil hætta á því síðarnefnda til skemmri tíma litið.