Hagnaður Faxaflóahafna slf. í fyrra nam 367,4 milljónum króna en var 248,7 milljónir árið 2011. Hagnaðurinn er jafnframt töluvert meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrirtækisins, en þar var áætlaður hagnaður um 205,6 milljónir króna.

Rekstrartekjur Faxaflóahafna voru kr. 2.731,1 milljón króna sem er 11,4% hækkun tekna á milli áranna 2011 og 2012. Ef frá eru teknar óreglulegar tekjur er breytingin á milli ára um 6,75%.

Rekstrargjöld fyrirtækisins voru kr. 2.226,6 milljónir og hækka að krónutölu á milli ára um 128,4 milljónir eða um 6,1%. Rekstrargjöld voru hins vegar 47,3 milljónum króna hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir eða sem nemur 2,17%.

Langtímaskuldir Faxaflóahafna voru í árslok 1.660,9 milljónir og lækka um 186,7 milljónir milli ára eða um 10,1%. Meginskýring þess er að á árinu greiddu Faxaflóahafnir upp lán hjá Íslandsbanka upp á 175,0 milljónir og að auki voru greiddar upp lífeyrisskuldbindingar við Lífeyrissjóð Akraness upp á 75,4 milljónir króna Þá var gengið frá endurskoðun og lækkun vaxta á láni hjá Landsbankanum. Eigið fé fyrirtækisins er 10,9 milljarðar króna.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri, var með um 16,3 milljónir króna í laun á árinu, samanborið við 14,9 milljónir árið 2011. Mánaðarlaun hans í fyrra voru því að jafnaði um 1,35 milljónir króna og hækkuðu um 113.000 krónur milli ára.

Faxaflóahafnir sf. er sameignarfélag í eigu fimm sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar, Skorradalshrepps og Borgarbyggðar.