Fyrsta daginn sem Geir Lippestad vann að vörnum fyrir Anders Behring , fjöldamorðingja í Osló og Útey, fékk hann 3.560 skilaboð á símann sinn. Það voru til dæmis tölvupóstar og smáskilaboð. Frá þessu sagði Lippestad á fundi Lögmannafélags Íslands á Hilton Nordica Hótel í dag.

Lippestad sagði að skipta mætti þessum skilaboðum í þrjá flokka eftir eðli þeirra.

Einn flokkurinn var frá hópi fólks sem var brjálað vegna þeirrar ákvörðunar Lippestads að hafa tekið að sér að verja Breivik. „Þetta var venjulegt fólk sem vildi skjóta mig, rífa hausinn af mér og  hvað eina. Og ég skildi fólkið. Það er alveg hægt að skilja það,“ sagði Breivik.

Annars vegar voru kurteis skilaboð frá allskyns fólki í samfélaginu, stofnunum og aðilum sem Lippestad vann fyrir. „Þú þarft ekki að koma á næsta stjórnarfund. Ekki koma á næsta stjórnarfund,“ stóð meðal annars í þessum skilaboðum. Fólk var að segja skilið við Lippestad vegna þessarar ákvörðunar hans. „Það var samstarfsmaður á sömu lögmannsstofu sem tók niður nafnspjaldið og gekk út,“ sagði Lippestad.

Anders Behring Breivik
Anders Behring Breivik

Lippestad sagði að þriðji hópurinn hefði verið fjölmiðlar með allskonar spurningar, einkum um það hvers vegna hann hafði tekið að sér starfið. „Til dæmis var spurt hvort ég væri öfgamaður. Mér brá við viðbrögð þriðja hópsins. Ég hélt að fjölmiðlar þekktu betur til starfs lögmanna,“ sagði Lippestad. Hann sagði að fjölmiðlamenn frá Norðurlöndunum hefðu verið rólegir. Fjölmiðlar úr öðrum hluta heims hefðu verið miklu æstari og sett sig á sama stall og Breivik.

Hann sagði að í lok dags haf lögreglan haft áhyggjur af velferð sinni, spurt sig hvort hann vildi lögreglufylgd og ráðlagt sér að fara ekki heim lögreglan spurði hvort ég vildi fylgt út. „Ég sagði þeim að ég yrði að fara heim en fyrst vildi ég ræða við fjölmiðla,“ sagði Lippestad.

Grundvallargildi mikilvæg

Lippestad sagði að hann hefði haft miklar efasemdir um það hvort hann ætti að taka að sér málið fyrst þegar honum bauðst það. Það var Breivik sem óskaði eftir því að hann fengi Lippestad sem lögmann sinn. Hann hefði langað mikið til þess að segja nei. Hann hafi spurt konuna sína ráða og vonast til þess að hún myndi ráða honum frá því að taka málið að sér. Eiginkonan, sem er hjúkrunarfræðingur, hafi hins vegar komið honum til þess að hugsa. Hún hafi gert honum ljóst að maður sem kæmi sár á spítala myndi alltaf fá þjónustu, alveg sama hvernig hann hefði brotið á sér. Þá hafi hann farið að hugsa um grundvallargildi og ástæðu þess að hann hafi gerst lögmaður.

„Konan mín hafði rétt fyrir sér. Ég er lögmaður og það er mikilvægt að halda grundvallarlögmálum réttarríkisins í heiðri og þessi maður vill að ég verji sig,“ sagði Lippestad að hefðu verið hugsanir sem hefðu skotist upp í huga hans. Hann sagði líka að þegar hann hafi fyrst farið að hitta hann hefði hann hugsað með sér, hverskonar skepnu hann væri að hitta, sem hefði drepið tugi mann. Hann hefði hinsvegar ekki mátt hugsa á þann hátt.

„Ég þurfti að hætta að hugsa um hann sem skepnu. Ég hugsaði að ef ég myndi hugsa um hann sem skepnu þá gæti ég ekki varið hann. Ég þarf að hugsa um hann sem manneskju sem á rétt á mannréttindum,“ sagði Lippestad.