*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 17. maí 2019 14:13

Fékk ekki að miða iðgjald við laun

Ríkið og B-deild LSR voru sýknuð af kröfu starfsmanns um að við ákvörðun iðgjalda bæri að miða við raunlaun hans.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Íslenska ríkið og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) voru í upphafi mánaðar sýknuð af kröfu starfsmanns sendiráðsins í Danmörku um að við ákvörðun iðgjalda hans beri að miða við raunveruleg grunnlaun hans.

Árið 1988 var maðurinn ráðinn sem bifreiðastjóri sendiherra Íslands í Danmörku. Í ráðningasamningi var kveðið á um að hann mætti gerast aðili að LSR og að lífeyrisgreiðslur hans skyldi inna af hendi samkvæmt almennum reglum LSR þar sem starfmaður er sjóðsfélagi. Í málinu var deilt um það hvort greiðslurnar ættu að miðast við raunveruleg laun mannsins eður ei.

Viðmiðunarlaunin samkvæmt ákvörðun utanríkisráðuneytisins voru þau sömu og starfsmaður í móttöku utanríkisráðuneytisins nýtur. Laun móttökuritara eru um helmingi lægri en laun mannsins. Því vildi maðurinn ekki una enda yrði starf hans ekki lagt að jöfnu við starf móttökuritara. Frá 2010 hafi hann verið almennur starfsmaður og skyldi auk starfa sem getið var í samningnum vinna störf bæði á skrifstofu sendiráðsins og sendiherrabústaðnum.

Samhliða almennum skrifstofustörfum hafi hann séð um endurbætur og viðhald á fasteignum, séð um öflun tilboða í viðhaldsverkefni og haft yfirumsjón með samskiptum við verktaka. Þá taki hann þátt í undirbúningi funda og viðburða í sendiráðinu, annist tæknimál, sjái um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í sendiráðinu og útgáfu neyðarvegabréfa.

LSR og ríkið byggðu á móti á því að laun mannsins væru greidd í dönskum krónum og ákveðin með öðrum hætti en gengur og gerist hjá starfsmönnum ríkisins. Þó að maðurinn tæki ekki laun samkvæmt kjarasamningi hafi honum engu að síður verið veitt aðild að B-deild LSR. Að mati þeirra voru störfin tvö sambærileg og viðmiðunarlaunin því rétt.

Það er skemmt frá því að segja að Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði öllum málsástæðum mannsins. Ekki yrði betur séð en að hann hefði haft val um það hvort hann greiddi í B-deildina eða veldi danskan lífeyrissjóð. Ríkið og LSR voru því sýknuð og var hann dæmdur til að greiða 1,15 milljón í málskostnað. Maðurinn naut gjafsóknar og greiddust 1,2 milljón úr ríkissjóði til hans vegna þess.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is