Kristinn ehf. hefur keypt meirihluta hlutafjár í Kvos ehf., móðurfélagi Odda. Seljendur eru einkum fjölskyldur nokkurra erfingja stofnenda Odda. Kaupverð er trúnaðarmál. Eignarhluti Þorgeirs Baldurssonar, forstjóra Kvosar, er óbreyttur eftir aðkomu Kristins. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Kristinn ehf. er í eigu Guðbjargar Matthíasóttur útgerðarkonu, en hún á tæplega 30% hlut í Árvakri, útgáfufélags Morgunblaðsins, í gegnum félögin Hlyn A og Ísfélagið. Árvakur á jafnframt Landsprent.

Kaupin hafa verið borin undir Samkeppniseftirlitið á grundvelli samrunareglna samkeppnislaga. Hefur Samkeppniseftirlitið heimilað kaupin með nánar tilgreindum skilyrðum sem fram koma í samkomulagi aðila. Í áliti eftirlitsins segir m.a. að skilyrðunum sé ætlað að tryggja að full og óskoruð samkeppni muni ríkja á milli Landsprents og Kvosar. Til að tryggja viðskiptalegt sjálfstæði fyrirtækjanna er mælt fyrir um fullan rekstrar- og stjórnunarlegan aðskilnað milli þeirra. Þá er fyrirtækjunum bannað að hafa með sér hvers konar samvinnu sem takmarkað geti samkeppni.

Kvos er móðurfélag Odda, Gutenberg, Kassagerðarinnar og Plastprents, en þau fyrirtæki hafa nú verið sameinuð og eru í dag rekin undir einu vörumerki: Odda. Hjá Odda starfa um 300 manns í dag og áætluð ársvelta 2013 er tæplega 6 milljarðar króna. Framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi Kvosar og framleiðslueininga Odda er Baldur Þorgeirsson. Framkvæmdastjóri Odda er Jón Ómar Erlingsson. Forstjóri Kvosar er Þorgeir Baldursson.