„Mig hefur alltaf langað að keyra í gegnum Salanggöngin hér í Afganistan en ég flaug,“ segir Sigrún Andrésdóttir stjórnsýslusérfræðingur í Mazar-e Sharif í Afganistan. Sigrún lagði á sig 30 klukkustunda ferðalag til að kjósa í næstu alþingiskosningum á Íslandi.

„Á þriðjudagsmorgun tók ég herflutningavél sem fór frá Mazar-e Sharif þar sem ég bý og lenti á KAIA, alþjóðaflugvellinum í Kabúl tveimur klukkustundum síðar. Kosningagögnin komu ekki fyrr en seinnipartinn svo ég náði ekki að kjósa fyrr en um kvöldið á skrifstofu Íslensku friðargæslunnar á flugvellinum. Ég flaug síðan heim daginn eftir,“ segir Sigrún.

„Það var aldrei spurning hvort ég færi eða ekki, spurningin var bara hvernig og hversu langan tíma það tæki," segir Sigrún og bætir við: „Þetta er líka ágætis upphitun fyrir afgönsku forsetakosningarnar sem verða á næsta ári. Afganir hafa alltaf lagt mikið á sig þegar kemur að því að nýta kosningarétt sinn og í því ljósi er ferðalag mitt mjög einfalt í samanburði. Afgönskum samstarfsmönnum mínum fannst alveg sjálfsagt mál að ég legði þetta á mig," segir Sigrún.