Breska ferðaskrifstofan Super Break, sem stendur fyrir flugferðum frá Bretlandi beint til Akureyrar í janúar og febrúar næstkomandi, hefur nú ákveðið að fljúga með farþega frá Bretlandi til Akureyrar næsta sumar og sömuleiðis næsta vetur 2018-2019. Þetta var tilkynnt á fundi forsvarsmanns Super Break, Chris Hagan, með fulltrúum ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi sem haldin var á Hótel KEA í gær.

Nýting flugsæta í þeim 14 ferðum sem verða farnar nú í vetur er langtum betri en Super Break átti von á og stefnir í að hún verði 95%. Með þennan mikla áhuga Breta að leiðarljósi, var ákveðið að fljúga einnig næsta sumar til Akureyrar og fljúga enn oftar til Akureyrar næsta vetur en nú. Samtals verður flogið sjö sinnum til Akureyrar næsta sumar, en næsta vetur verða flugferðirnar að minnsta kosti 22 talsins. Sumarflugin verða frá 11. júní til 6. júlí en vetrarflugin frá 10. desember til febrúarloka. Super Break stefnir í framhaldinu af því að fjölga ferðum enn frekar og markmiðið er að bjóða upp á ferðir til Akureyrar allt árið um kring.

Tæplega 25 þúsund gistinætur í heildina

Þegar rýnt er í tölurnar, hvað varðar ferðamannafjölda og gistináttafjölda, kemur í ljós að miðað við 95% nýtingu flugsæta í janúar og febrúar 2018 komi um það bil 2.500 manns frá Bretlandi til Norðurlands og gistinæturnar verða um það bil 8.750. Heildarfjöldi gistinátta árið 2017 í janúar og febrúar voru tæplega 18.000 á Norðurlandi.

Næsta sumar, miðað við 85% nýtingu sæta verða þetta um 1.100 manns og 3900 gistinætur.

Næsta vetur stefnir í að um 3.500 manns komi til Norðurlands með þessu beina flugi og að gistinæturnar verði 12.250