Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands, er á meðal aðalfyrirlesara á fjölmennri ráðstefnu norrænna viðskiptafræðinga sem fram fer í Háskóla Íslands þessa vikuna. Ráðstefnan hefst í dag og henni lýkur á föstudaginn.

Ráðstefnan er haldin á vegum Nordic Academy of Management og eru þátttakendur um 500 talsins. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er  “On Practice and Knowledge Eruptions” og markmið hennar er meðal annars að kynna rannsóknir, efla samstarf og miðla þekkingu á milli norrænna fræðimanna.

Á ráðstefnunni verða kynntar niðurstöður nýrra rannsókna á sviði viðskiptafræða í ríflega 400 erindum á um 135 málstofum undir 30 efnisflokkum. Rætt verður meðal annars um stefnumótun, stjórnun nýsköpunar, vörumerkjastjórnun, neytendahegðun, markaðsfræði í stafrænum heimi, frumkvöðla og tísku, verkefnastjórnun, þróun viðskiptamódela, mannauðsstjórnun, þróun hvatakerfa og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja svo fátt eitt sé nefnt.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar eru, auk Gylfa, þau dr. Barbara Czarniawska prófessor við Gautaborgarháskóla og dr. Richard Whittington, gestaprófessor við Oxfordháskóla og frumkvöðull í stefnumótunarfræðunum.