Fimm leikarar Borgarleikhússins fara af samningi á næstunni. Nokkrum var sagt upp en aðrir hætta af öðrum ástæðum. Á sama tíma hafa sex nýir leikarar verið ráðnir. Nýju leikararnir eru Hilmir Snær Guðnason, Björn Thors, Þórunn Arna Kristjánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson.

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, segir uppstokkun í leikarahópnum lið í skipulagsbreytingum sem fylgi nýjum leikhússtjóra. Á meðal annarra breytinga eru að leikritagerð verður styrkt til muna og samstarfi komið á við erlend leikhús með samstarfssamningi við Gísla Örn Garðarsson hjá Vesturporti.

„Ég er að endurstilla leikhúsið og efla leikhópinn með verkefnavalið í huga. Leikhúsið þarf auðvitað að haldast á hreyfingu til að vera lifandi og geta vaxið og dafnað,“ segir Kristín.

Rætt er við Kristínu í blaðinu Áhrifakonur, fylgiblaði Viðskiptablaðsins, sem kemur út í fyrramálið.