Styrkur Invest gerði framvirka samninga við Landsbankann, Glitni, Icebank, Straum fjárfestingarbanka og VBS fjárfestingarbanka um kaup á hlutabréfum í FL Group fyrir bankahrun. Ljóst er að allir þessir aðilar hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum á samningunum.

Framvirku samningarnir virkuðu í raun eins og kúlulán. Styrkur Invest tók við hlutabréfum í FL Group frá fjármálafyrirtækjunum sem lánuðu fyrir kaupum Styrks á þeim en samþykktu á sama tíma að kaupa bréfin til baka eftir tiltekinn tíma. Þegar kom að uppgjörsdegi samninganna voru þeir hins vegar, nánast án undantekninga, endurnýjaðir óháð því hver þróun á gengi bréfanna hafði verið. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að engir vextir hafi verið greiddir af samningunum að minnsta kosti síðasta árið fyrir bankahrun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.